Top Reiter

Top Reiter liðið hefur verið sigursælt í Meistaradeildinni en það sigraði liðakeppnina árin 2012, 2013, 2014 og 2017. Knapar eru Teitur Árnason, Árni Björn Pálsson, Eyrún Ýr Pálsdóttir, Konráð Valur Sveinsson og Hanna Rún Ingibergsdóttir.

Teitur Árnason, liðsstjóri, er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum og starfar við tamningar og þjálfun á Hvoli í Ölfusi. Teitur hefur átt góðu gengi að fagna á keppnis- og kynbótabrautinni. Hann er ríkjandi heimsmeistari í gæðingaskeiði en einnig vann hann þá grein árið 2015. Teitur hefur unnið A flokk gæðinga, 7 vetra flokk hryssna og 150 metra skeið á Landsmóti. Hann á núgildandi Íslandsmet í 150 metra skeiði og var valinn skeiðknapi ársins 2014 og 2015. Teitur og Hafsteinn frá Vakurstöðum urðu fyrsta parið til að sigra A flokk á Landsmóti og fimmgang á Íslandsmóti á sama árinu. Teitur var gæðingaknapi ársins 2018.

Árni Björn Pálsson er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hann stundar tamningar og þjálfun á Oddhóli á Rangárvöllum og hefur staðið sig gríðarvel á keppnis- og kynbótabrautinni undanfarin ár. Hann er margfaldur Íslandsmeistari og Landsmótssigurvegari. Hann varð t.d. Íslandsmeistari í tölti árið 2012, 2013, 2014, 2016 og 2019 og þrefaldur Landsmótssigurvegari í tölti í röð, 2014, 2016 og 2018. Hann var valinn kynbótaknapi ársins 2013, 2018 og 2019 og knapi ársins 2014, 2016 og 2018. Árni Björn hefur sigraði einstaklingskeppni Meistaradeildarinnar oftast allra knapa eða fjórum sinnum, árið 2014, 2015, 2016 og 2018.

Eyrún Ýr Pálsdóttir er úrskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Eyrún hefur verið ötul á keppnisbrautinni og náð góðum árangri en hún sigraði A flokkinn á Landsmóti 2016 á Hrannari frá Flugumýri II og varð Íslandsmeistari í fimmgangi 2015. Eyrún Ýr varð einnig heimsmeistari á nöfnu sinni frá Hásæti í 6 vetra flokki hryssna árið 2019. 

Konráð Valur Sveinsson er margfaldur Íslands- og heimsmeistari í skeiðgreinum. Hann varð heimsmeistari í 250 m. skeiði og 100m. skeiði í Berlín árið 2013 og árið 2019 í 100 m. skeiði. Hann er ríkjandi Íslandsmeistari í 250m. og 100m. skeiði á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu en þeir sigruðu líka þessar greinar 2018. Einnig sigraði hann 100m. skeiðið á Landsmóti 2016 og 2018 sem og 250m. skeiðið. Konráð Valur var valin skeiðknapi ársins 2018 og 2019.

Hanna Rún Ingibergsdóttir útskrifaðist vorið 2015 sem tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún hefur verið virk á keppnisbrautinni síðastliðin ár og hefur meðal annars verið í úrslitum á Íslandsmótum og Landsmótum. Hanna Rún starfar við tamningar og þjálfun í Kirkjubæ.

Top Reiter framleiðir hágæða hnakka, reiðtygi og fatnað og hefur verið leiðandi á því sviði í 30 ár. Top Reiter er stoltur styrktaraðili fjölmargra knapa í fremstu röð. Höfuðstöðvarnar eru á hestabúgarðinum Hrafnsholti í Þýskalandi en Top Reiter vörurnar eru seldar í 17 löndum víðsvegar um heiminn. Eigendur eru þeir feðgar Herbert Ólason og Ásgeir Svan Herbertsson. Á Íslandi fást vörurnar í verslunum Líflands.​


Facebook slóðir
Vefslóðir


Fara á forsíðu

FYLGSTU MEÐ!

Bein útsending á oz.com - Náðu í áskrift hér
Watch all the events online - subscribe here

Netáskrift

styrktaraðilar

Höfundaréttur © 2008 - 2015 | Meistaradeildin í hestaíþróttum | Allur réttur áskilinn.