Ganghestar / Austurás
Lið Ganghesta/Austuráss hét hér áður Ganghestar/Margrétarhof en með nafna breytingunni urðu líka breytingar á knöpum. Liðsmenn í þessu liði eru Sigurður Vignir Matthíasson, liðsstjóri, Edda Rún Ragnarsdóttir, Glódís Rún Sigurðardóttir, Telma Lucinda Tómasson og Ragnhildur Haraldsdóttir.
Sigurður Vignir Matthíasson, liðsstjóri, starfar á Fákssvæðinu í Reykjavík ásamt eiginkonu sinni. Sigurður er landsliðsmaður og hefur verið nokkrum sinnum þjálfari íslenska landsliðsins bæði á heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum. Hann er margfaldur heims- og Íslandsmeistari, Landsmótssigurvegari og mætti lengi telja áfram.
Edda Rún Ragnarsdóttir er fædd inn í mikla hestamannafjölskyldu og hefur stundað útreiðar og hestamennsku frá því að hún man eftir sér. Faðir hennar er hinn þekkti hestamaður og knapi Ragnar Hinriksson og afi hennar, Hinrik Ragnarsson, var þjóðkunnur hestamaður á sinni tíð. Edda Rún hefur náð glæstum árangri í gæðingakeppni og hefur unnið fjölda Íslandsmeistaratitla í hestaíþróttum, í barna-, unglinga- og fullorðinsflokki og má þar nefna Íslandsmeistaratitil í fjórgangi í opnum flokki á Reyni frá Hólshúsum á Íslandsmótinu í Garðabæ 2005.
Glódís Rún Sigurðardóttir er fædd og uppalin á Sunnuhvoli í Ölfusi þar sem hún stundar tamningar og þjálfun meðfram námi. Hún hefur verið viðloðandi hestamennsku frá unga aldri og að baki á hún m.a 22 Íslandsmeistaratitla og þrjá sigra á Landsmóti í barnaflokki. Tvisvar hefur Glódís verið fulltrúi íslenska landsliðsins, bæði á Norðurlandamóti og nú seinast á heimsmeistaramótinu í Berlín.
Ragnhildur Haraldsdóttir er starfandi tamningamaður og reiðkennari. Hún hefur stundað hestamennsku frá barnsaldri og starfað við þjálfun hrossa í fjölda ára. Hún útskrifaðist sem reiðkennari C frá Hólum árið 2011. Ragnhildur starfar sjálfstætt á Selfossi að Vallartröð 9 þar sem hún tekur að sér hross í þjálfun og sölu og einnig bíður hún upp á reiðkennslu. Hún hefur gert það gott á keppnis- og kynbótabrautinni síðastliðin ár.
Telma Lucinda Tómasson er útskrifaður tamningamaður, þjálfari og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún er Fáksfélagi, sinnir þjáflun og reiðkennslu í Víðidalnum í Reykjavík samhliða starfi sem fréttaþulur, fréttamaður og hestaíþróttafréttamaður á Stöð 2. Telma hefur sýnt góða takta á keppnisvellinum undanfarin misseri, einkum í töltkeppni, sigraði t.a.m. T3 í atvinnumannaflokki í Suðurlandsdeildinni 2019, opinn flokk í Kvennatölti sama ár og var leynivopn liðs Ganghesta/Margrétarhofs í T1 í Meistaradeildinni 2019.
Hrossaræktarbúið Austurás er í eigu Hauks Baldvinssonar og Ragnhildar Loftsdóttir, það er staðsett rétt við Selfoss. Í Austurási er öll aðstaða til tamninga og þjálfunar hrossa frábær, aðstaðan var tekin í notkun árið 2007 og síðan þá hefur verið starfandi þjálfari allann ársins hring ásamt því að Haukur og Ragga þjálfa eftir vinnu. 23 rúmgóðar stíur eru í hesthúsinu ásamt reiðhöll. Haukur og Ragga rækta hross frá Austurási og eru aðalræktunarhryssur þeirra Hugadóttirin Ópera frá Nýjabæ sem m.a átti tvær dætur á LM2018 , Flís frá Austurási og hestagullið Kröflu frá Austurási, Framherjadóttir sem varð í 4.sæti í flokki 4 vetra hryssna á LM 2018 og Sjóladóttirin Spóla frá Syðri Gegnishólum sem búin er að raða inn glæsilegum 1.verðlaunadætrum, m.a Sunnu frá Austurási. Einnig er framtíðarræktunarhryssa búsins, Sigurrós frá Stuðlum genabunki ásamt því að vera yfirburðargæðingur að detta inn í ræktun á komandi sumri og eiga Haukur og Ragga einnig Draupni frá Stuðlum ásamt ræktendum hans , Palla og Eddu á Stuðlum. Aðalþjálfari í Austurási er Ásta Björnsdóttir, útskrifuð frá Hólum árið 2015 og búin að vera síðan þá og er að hefja sitt 5 ár.
Ganghestar ehf. er alhliða hestamiðstöð þar sem boðið er upp á hefðbundna þjónustu við hestafólk, kaup og sölu á hrossum, reiðkennslu, frumtamningar og þjálfun á kynbóta- og keppnishrossum. Eigendur fyrirtækisins eru Sigurður Vignir Matthíasson og Edda Rún Ragnarsdóttir. Ganghestar ehf. er með aðsetur að Fákabóli 3 á félagssvæði Fáks og er starfsemi í gangi þar allan ársins hring. Yfir sumartímann fer þar einnig fram starfsemi Reiðskóla Reykjavíkur sem er í eigu sömu rekstaraðila.
Facebook slóðir
- https://www.facebook.com/ganghestarganghestar?fref=ts
- https://www.facebook.com/austur%c3%a1s-hestar-horse-breeding-973424826052971/
Vefslóðir