Auðsholtshjáleiga / Horse export / Strandarhöfuð
Lið Auðsholtshjáleigu / Horse export hefur verið með í deildinni frá árinu 2010 en í ár bætist við ræktunarbúið Strandarhöfuð. Lið Auðsholtshjáleigu sigraði liðakeppnina í fyrsta skipti árið 2016 og fyrstu tvö árin var það eingöngu skipað konum en nú er það blandað. Ásmundur Ernir Snorrason er liðsstjóri en aðrir liðsfélagar eru Edda Rún Guðmundsdóttir, Jóhann Magnússon, Sylvía Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Erla Gunnarsdóttir
Ásmundur Ernir Snorrason, liðsstjóri, starfar sem tamingamaður á Strandarhöfði í Landeyjum. Hann var kosinn efnilegasti knapi ársins 2012 og hefur verið framarlega á keppnisbrautinni frá barnsaldri. Hann hefur m.a. verið í úrslitum á Landsmótum, Heimsmeistaramótum og Íslandsmótum auk þess að eiga nokkra Íslandsmeistaratitla. Ásmundur hefur vakið athygli meðal annars á hestunum Rey frá Melabergi, Speli frá Njarðvík, Fræg frá Strandarhöfði og Fáfni frá Efri-Rauðalæk í skeiðgreinum. Ásmundur og Spölur voru í landsliði Íslands 2017 í Oirschot þar sem þeir voru í úrslitum í bæði tölti og fjórgangi en Ásmundur var einnig í landsliði Íslands 2019 í Berlín og keppti þar til úrslita í fjórgangi á Frægi.
Edda Rún Guðmundsdóttir er útskrifaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar núna við tamningar og þjálfun í Fáki en á sumrin starfar hún í Strandarhöfði. Edda byrjaði ung að keppa og hefur keppt mikið í gegnum tíðina með góðum árangri. Hún var meðal annars þrefaldur Reykjavíkurmeistari í fyrsta flokki árið 2017 og 2019 í tölti, fjórgangi og samanlögðum fjórgangsgreinum á hryssu sinni Spyrnu frá Strandarhöfði.
Jóhann Birgir Magnússon hefur lengi gengið braut mennta og æfinga í faginu. Upphafið af því öllu var reiðnámskeið hjá Reyni Aðalsteinssyni vorið 1979. Tók öll skólastig sem í boði voru á Hólum á sínum tíma. Stundar hrossarækt og tamningar á Bessastöðum í Húnaþingi vestra og notar þau tækifæri sem gefast við að kynna hross úr sinni ræktun í keppni og sýningum.
Sylvía Sigurbjörnsdóttir er útskrifaður reiðkennari og þjálfari frá Háskólanum á Hólum. Sylvía hefur vakið athygli fyrir prúðmannlega og glæsilega reiðmennsku. Sylvía og gæðingur hennar Héðinn-Skúli hafa vakið mikla athygli eftir glæsilega framgöngu.
Þórdís Erla Gunnarsdóttir er tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hún starfar við tamningar á Auðsholtshjáleigu/Grænhóli. Þórdís Erla hefur verið viðloðandi keppni frá blautu barnsbeini og staðið sig vel í kynbótasýningum.
Auðsholtshjáleiga í Ölfusi er það hrossaræktarbú sem oftast hefur hlotið titilinn Ræktunarbú ársins en búið hefur hampað titlinum sex sinnum, 1999, 2003, 2006, 2008, 2011 og 2013. Eigendur búsins eru þau Gunnar Arnarsson og Kristbjörg Eyvindsdóttir en samhliða búinu reka þau útflutningsfyrirtækið Gunnar Arnarsson ehf. Aðalbækistöð búsins er á Grænhóli í Ölfusi. Þar er frábær aðstaða til tamninga og þjálfunar sem byggist meðal annars á frábærum reiðleiðum, reiðhöll, hringvelli með beinni braut, hlaupabretti og að sjálfsögðu glæsilegu hesthúsi.
Strandarhöfuð er staðsett á Suðurlandi nánar tiltekið Vestur-Landeyjum. Búið hefur verið í eigu hjónanna Auðar M. Möller og Guðmunds Más Stefánssonar frá árinu 2003, en full starfsemi hófst sumarið 2014. Á Strandarhöfði fæðast á bilinu 10-12 folöld á ári og lögð er mikil áhersla á að rækta topp keppnishesta.
Facebook slóðir
- https://www.facebook.com/pages/auðsholtshjáleiga/174730759249542?sk=info
- https://www.facebook.com/strandarhofudicelandichorsebreedingfarm/
Vefslóðir