Stefnum að sigri
Nú eru rúmlega tvær vikur í að Meistaradeildin byrji aftur en fjórgangurinn fer fram í Fákaseli, 28 janúar. Við ákváðum að heyra í Viðari Ingófssyni og athuga hvernig undirbúningurinn gangi fyrir fjórganginn, en Viðar er liðsstjóri liðs Top Reiter/Sólningar. Viðar er einn af þeim sem hefur verið hvað lengst í deildinni og sigraði hann einstaklingskeppnina árið 2007 og 2008.
“Það gengur bara ágætlega en það liggur töluverð vinna að baki því að keppa í Meistaradeildinni. Ég er ágætlega stemmdur fyrir fjórgangnum en ég er með tvö 6 vetra hross sem ég stefni á að mæta með í vetur í deildina,” segir Viðar en hann telur liðið vera þó nokkuð vel hestað fyrir fjórganginn. “Jakob, Matthías og Teitur eru í góðum málum og gætu orðið ofarlega. Við erum ekki búnir ákveða hverjir munu keppa í fjórgangnum en það kemur í ljós á næstu dögum.”
Lið Top Reiter hefur verið farsælt í liðakeppninni undanfarin ár en það sigraði hana þrjú ár í röð, 2012, 2013 og 2014 en einnig var liðið kosið skemmtilegasta liðið árið 2013 og 2014. “Við ætlum að reyna allt sem við getum til þess að vinna liðakeppnina. Það er enginn spurning,” segir Viðar en liðið er nú í 6 sæti með 63,5 stig og nóg eftir að stigum í pottinum.
Meistaradeildin hefur breyst þó nokkuð á undanförnum árum. “Umgjörðin í kringum deildina er alltaf að vera flottari og flottari. Hér áður fyrr var kannski meira einblínt á einstaklingskeppnina en núna er alltaf verið að leggja meiri áherslu á liðakeppnina. Samkeppnin er alltaf að verða meiri og meiri en fyrir svona 7-10 árum þá voru kannski fjórir eða fimm knapar sem voru að berjast um sigurinn en núna er þetta farið að dreifast á fleiri hendur,” segir Viðar að lokum.