Guðmundur snýr aftur
Annað liðið sem við kynnum til leiks í Meistaradeildinni er Hestvit / Árbakki / Svarthöfði. Liðið er að mestu óbreytt frá því í fyrra en ein breyting var gerð á liðinu. Gústaf Ásgeir Hinriksson hefur yfirgefið liðið og í stað hans kemur Guðmundur F. Björgvinsson. Guðmundur tók lengi þátt í deildinni en ákvað í fyrra að taka ekki þátt. Guðmundur hefur nú snúið aftur og komin í nýtt lið en hér áður var hann í liði Top Reiter. Aðrir liðsmenn eru heiðurshjónin Hinrik Bragason og Hulda Gústafsdóttir ásamt Ragnari Tómassyni og Ólafi Brynjari Ásgeirssyni.
Hinrik Bragason er liðsstjóri liðsins en hann er tamningamaður og reiðkennari á Árbakka. Hinrik er margfaldur heims- Íslands- og Norðurlandameistari. Hann hefur einnig verið að gera góða hluti við sýningu kynbótahrossa undanfarin ár. Hinrik sigraði A-flokk á LM 2011 og var kjörinn gæðingaknapi ársins 2011. Hinrik var í landsliðinu HM 2013 og keppti í tölti fyrir Íslands hönd á Smyrli frá Hrísum.
Guðmundur Björgvinsson er tamningamaður FT. Hann rekur tamningastöð á Efri-Rauðalæk ásamt konu sinni Evu Dyröy. Guðmundur er m.a. Íslandsmeistari í fjórgangi 2012 og 2015, hefur verið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu þ.á.m. árið 2013 þegar hann nældi sér í tvö gull á kynbótabrautinni og árið 2015 þegar hann varð heimsmeistari í fjórgangi. Guðmundur var kosinn knapi ársins árið 2012 og 2015. Guðmundur sigraði einstaklingskeppnina í Meistaradeildinni árið 2013
Hulda Gústafsdóttir er tamningamaður og reiðkennari á Árbakka. Samhliða rekstri Árbakka hesta reka þau Hinrik útflutningsfyrirtækið Hestvit ehf. Hulda er margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari og hefur jafnframt verið í íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótum og verið í úrslitum þar, efst í öðru sæti.
Ólafur Brynjar Ásgeirsson stundar tamningar og þjálfun á Vöðlum. Ólafur hefur staðið framarlega á keppnisbrautinni undanfarin ár og hefur einnig verið að gera góða hluti í kynbótasýningum. Ólafur sigraði fjórganginn tvö ár í röð (2014 og 2015) í Meistaradeildinni á Hugleiki frá Galtastöðum.
Ragnar Tómasson kemur úr hestamannafélaginu Fáki. Hann hefur verið að gera góða hluti í keppni undanfarin ár og hefur verið ofarlega á heimslistanum í 100m skeiði undanfarin ár.