Alltaf með sömu rútínuna

Næst á dagskrá í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum er keppni í slaktaumatölti en hún fer fram næsta fimmtudag í Fákaseli kl. 19:00. Enginn hefur orðið Íslandsmeistari jafn oft í slaktaumatölti og Reynir Örn Pálmason, okkur þótti því við hæfi að heyra aðeins í Reyni og sjá hvernig undirbúningur gangi.

Reynir Örn er í liði Ganghesta/Margrétarhofs en síðasta æfing hjá liðinu er á morgun. “Það er ekki búið að velja í liðið en mér líst mjög vel á hestakostinn. Það verður erfitt að velja bestu hestana en við erum með nokkra sem koma til greina,” segir Reynir en þar á meðal eru þeir Brimnir frá Efri-Fitjum og Skorri frá Dalvík. Brimnir er góður alhliða hestur undan hinum margfalda heimsmeistara í tölti, Hnokka frá Fellskoti og heiðursverðlaunahryssunni Ballerínu frá Grafarkoti.

Reynir hefur fimm sinnum orðið Íslandsmeistari í slaktaumatölti, tvisvar á Greifa frá Holtsmúla og þrisvar á Baldvini frá Stangarholti. En hvað er það sem gerir hest að góðum slaktaumatöltara? “Aðalatriðið er að það sé eðlis gott tölt í hestinum og svo að hann sé geðgóður. Þeir mega ekki spenna sig upp og verða stressaðir betra er að þeir séu frekar rólegir, með gott jafnaðargeð,” segir Reynir en hann telur að með aukinni þjálfun er hægt að ná góðri stjórn á spennustiginu í hrossinu. Reynir þjálfar slaktaumatöltarana sína eins og hver önnur hross en leggur þó mikla áherslu á að þjálfa slaka tauminn. “Ég ríð þeim mikið á slökum taum og kenni þeim mínar múnderingar í kringum þetta. Ég geri alltaf sömu hlutina þegar ég hægi niður og sný við og ég sleppi taumnum á sérstakan hátt. Hestarnir læra þetta svo ég hef alltaf sömu rútínuna í kringum það,” segir Reynir

Reynir var í landsliðinu á síðasta heimsmeistaramóti þar sem hann varð heimsmeistari í samanlögðum fimmgangsgreinum og hlaut silfur í bæði fimmgangi og slaktaumatölti á Greifa frá Holtsmúla. Reynir á því sæti í landsliðinu á næsta heimsmeistaramóti sem fer fram í ágúst í Hollandi. Reynir stefnir á að fara með Laxnes frá Lambanesi á mótið, “Eins og staðan er í dag er það Laxnes sem ég stefni á með að fara með á Heimsmeistaramótið en ennars er ég alltaf með augun opinn ef einhver annar dettur inn,” segir Reynir en hann stefnir á að mæta með Laxnes í fimmganginn í Meistaradeildinni svo gaman verður að sjá hvernig þeim tekst til í brautinni.

Ekki missa af slaktaumatöltinu í Fákaseli á fimmtudaginn kl. 19:00. Húsið opnar 17:00 en miðasala mun fara fram í Top Reiter, Ástundun og Baldvini og Þorvaldi á Selfossi en einnig verður hægt að kaupa miða á staðnum. Ráslistar birtast á miðvikudaginn. 

 



Fara á forsíðu

FYLGSTU MEÐ!

Bein útsending á oz.com - Náðu í áskrift hér
Watch all the events online - subscribe here

Netáskrift

styrktaraðilar

Höfundaréttur © 2008 - 2015 | Meistaradeildin í hestaíþróttum | Allur réttur áskilinn.