Lið Gangmyllunnar er óbreytt
Fjórða liðið sem við kynnum til leiks er lið Gangmyllunar en það tók fyrst þátt í Meistaradeildinni árið 2013. Liðstjóri er Bergur Jónsson en aðrir knapar eru þau Olil Amble, Elin Holst, Sigurður Sigurðarson og Ævar Örn Guðjónsson.
Bergur Jónsson, liðstjóri, er frá Ketilsstöðum á Völlum og hefur verið áberandi í kynbótasýningum og keppni í áratugi. Hann hefur sýnt fjöldann allann af hrossum úr eigin ræktun og náð mjög góðum árangri á keppnisbrautinni. Hefur hann og Katla frá Ketilsstöðum vakið mikla athygli en þau urðu Íslandsmeistarar í tölti 2017 og sýndi hann hana í hæsta dóm sem klárhryssa hefur hlotið, sumarið 2017. Bergur vann einstaklingskeppnina í Meistaradeildinni 2017.
Elin Holst er norsk en búin að vera vinna fyrir þau Olil og Berg á Syðri-Gegnishólum síðast liðin 10 ár. Elin hefur náð góðum árangri bæði á kynbótabrautinni sem og á keppnisbrautinni. Hún og hestur hennar Frami frá Ketilsstöðum hafa gert það mjög gott en þau sigruðu fjórganginn, slaktaumatöltið og urðu samanlagðir fjórgangs sigurvegarar á Íslandsmótinu 2016 sem og B flokkinn á Landsmóti 2018.
Olil Amble er upprunalega norsk en á langan feril sem keppniskona á Íslandi og hefur margoft tekið þátt í heimsmeistaramótum og Norðurlandamótum auk þess að hafa hlotið marga Íslandsmeistaratitla, hefur hún líka orðið Norðurlandameistari og heimsmeistari. Olil hefur m.a sýnt mörg hross úr eigin ræktun bæði í kynbótadómi og keppni. Árið 2014 vann hún gæðingafimi meistaradeildarinnar á Álfhildi frá Syðri-Gegnishólum og í ár er hún Íslandsmeistari í fimmgangi á Álfarni frá Syðri-Gegnishólum.
Sigurður Sigurðarson rekur tamningastöð á Þjóðólfshaga og Hestheimum ásamt eiginkonu sinni. Sigurður er fyrsti sigurvegari Meistaradeildarinnar en hann sigraði hana árið 2001 og svo aftur árið 2011. Hann hefur verið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu, er heimsmeistari, margfaldur Íslandsmeistari, fyrrum heimsmethafi í 100m skeiði. Hann er sá knapi sem hefur sigraði gæðingakeppni á Landsmóti oftar en aðrir knapar og er sá eini sem hefur sigrað allar hringvallargreinar fullorðina á Landsmóti. Sigurður hefur þrisvar sinnum hlotið titilinn knapi ársins.
Ævar Örn Guðjónsson er menntaður tamningamaður og reiðkennari frá Háskólanum á Hólum. Hann hefur starfað sem tamningamaður og þjálfari hjá Hestum ehf. síðustu ár i hestamannafélaginu Spretti. Ævar hefur verið ötull bæði á keppnisbrautinni og kynbótabrautinni.