Allir tilbúnir að gera það sem þarf
Lið Auðsholtshjáleigu hefur verið með í deildinni frá árinu 2010 en það sigraði liðakeppnina í fyrsta skiptið árið 2016. Fyrstu tvö árin var það eingöngu skipað konum en nú er það blandað. Ásmundur Ernir Snorrason er liðstjóri en aðrir liðsfélagar eru Sylvía Sigurbjörnsdóttir, Þórdís Erla Gunnarsdóttir, Janus Eiríksson og Bjarni Bjarnason.
“Stemmingin er gríðarleg góð í liðinu en við mætum sterk til leiks. Ég sjálfur er frekar vel hestaður heilt yfir en ég held ég hafi aldrei verið með jafn marga góða hesta.” segir Ásmundur og telur upp nokkra gæðinga; Fræg frá Strandarhöfði, Kalda frá Ytra-Vallholti, Fáfni frá Efri-Rauðalæk, Pegasus frá Strandarhöfið og Dökkva frá Strandarhöfði.
Lið Auðsholtshjáleigu hefur verið nokkuð óbreytt í nokkur ár og hefur myndast góður andi innan liðsins. “Við erum mjög samhent lið og erum dugleg að heyra hvort í öðru og peppa hvort annað upp. Við reynum að hafa gaman af þessu. Við mætum mikið sterkari til leiks núna en í fyrra. Við byrjuðum mjög vel í fyrra en síðan fór aðeins að halla undan fæti. Við verðum miklu jafnari núna. Við unnum fjórganginn í fyrra og svona fyrirfram tel ég það verða sterkustu greinina okkar aftur,” segir Ásmundur
Það getur oft verið erfitt að velja hverjir eiga keppa fyrir hönd liðanna í hverri grein en af fimm knöpum mega einungis þrír keppa. “Þetta hefur alltaf verið mjög þægilegt hjá okkur og aldrei komið upp nein ágreiningsmál. Þetta er ákveðið á síðustu æfingunni og þá valdir þeir þrír hestar sem líta best út,” segir Ásmundur og bætir við “það eru allir tilbúnir að gera allt fyrir liðið, enginn er einungis að keppa fyrir sjálfan sig.”
Það verður spennandi að fylgjast með þessu frábæra liði etja kappi saman við hin sjö í vetur en fyrsta mót vetrarins fer fram 31.janúar í Samskipahöllinni í Spretti í Kópavogi en keppt verður í fjórgangi. Ekki láta viðburðinn fram hjá þér fara og tryggðu þér miða inn á tix.is
DAGSKRÁ 2019
Dagsetning Grein Staðsetning
31.janúar - Fjórgangur V1 - Samskipahöllin í Spretti, Kópavogi
14.febrúar - Slaktaumatölt T2 - Samskipahöllin í Spretti, Kópavogi
28.febrúar - Fimmgangur F1 - Samskipahöllin í Spretti, Kópavogi
14.mars - Gæðingafimi - TM höllin í Fáki, Reykjavík
23.mars - Gæðingaskeið og 150m. skeið
4.apríl - Tölt T1 og flugskeið - TM höllin í Fáki, Reykjavík